Ákall til ungliðahreyfinga: Ekki vera klappstýrur
Pistli frá 29. september 2018.
MMR hefur á undanförnum árum orðið að samfélagslegri perlu (að öðrum rannsóknarfyrirtækjum ólöstuðum). Kannanir þeirra á hversdagslegum fyrirbærum á borð við matarvenjur á jóladag, tannhirðu og afstöðu til málefnanna sem eru í deiglunni hverju sinni eru nefnilega farnar að mála upp virkilega áhugaverða mynd. Teknar saman, og greindar eftir búsetu, stjórnmálaskoðunum og aldri varpa þær ljósi á samfélagið okkar, á hátt sem okkur hefur ekki staðið til boða áður. Hvern hefði til dæmis grunað að fylgni væri milli aukinna heimilstekna og andstöðu við hvalveiðar?
Í gegnum kannanirnar sjáum við líka markverðan mun, jafnvel gjá, á afstöðu ólíkra aldurshópa til mikilvægra mála. Yngsti aldurshópur mælinganna er til að mynda langjákvæðastur í garð móttöku flóttafólks, sölu áfengis í matvöruverslunum og innheimtu vegtolla til að standa straum af rekstri þjóðvega á Íslandi. Miðað við kannanirnar er unga fólkið einnig líklegra til að vera á móti hvalveiðum, jákvætt í garð erlendra ferðamanna og til að telja #MeToo hreyfinguna hafa verið mjög jákvæða fyrir íslenskt samfélag.
Umrædd gjá er ekki séríslenskt fyrirbæri. Þannig benda kannanir til þess að um 3/4 ungra kjósenda í Bretlandi hafi kosið með áframhaldandi veru landsins í Evrópusambandinu. Sú niðurstaða er fullkomlega skiljanleg, enda hefur unga fólkið ríka hagsmuni af náms- og starfstækifærunum sem felast í sameinaðri Evrópu (og sennilega minni áhyggjur af innflytjendum þar, líkt og hér). Að sama skapi hefðu Demókratar í Bandaríkjunum hlotið vel yfir 80% kjörmanna árið 2016 ef atkvæði fólks undir 35 ára hefðu aðeins verið talin. Gjáin er skýr og hún er stór.
Þá kemur spurningin: Hver er ábyrgð ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna?
Í stjórnmálum hallar á ungt fólk. Kosningaþátttaka okkar er lág og fyrir því eru ýmsar ástæður. Ein af stærstu ástæðunum er sennilega sú að stjórnmálaflokkunum hefur mistekist höfða til yngstu kjósendanna. Fólk mætir ekki og kýs ef það telur engan valkost gæta hagsmuna sinna. Ábyrgð ungliðahreyfinganna felst í því að snúa þessu við. Að vera þrýstihópur fyrir skoðunum og baráttumálum ungs fólks innan hvers flokks. Að leyfa flokkunum ekki að eyrnamerkja tiltekin mál á borð við lánasjóðsmál sem málefni unga fólksins og skella skollaeyrum við skoðunum ungliða í öðrum.
Nú er tímabil aðalfunda ungliðahreyfinga gengið í garð, nokkrar hafa þegar kosið sér nýjar stjórnir og mín mun gera það í kvöld. Því beini ég ákalli til næstu stjórnar minnar eigin hreyfingar og stjórna allra ungliðahreyfinga stjórnmálaflokka á landinu að líta ekki á sig sem klappstýrur fyrir stefnu flokkanna sinna heldur móta sína eigin málefnastefnu og berjast fyrir innleiðingu hennar í stefnuskrá flokkanna. Baráttan í mínum flokki hefur gengið vel, enda tóku ungliðar þátt í stofnun flokksins og sitja í öllum málefnanefndum, sama hvort þær snúi að jafnréttismálum, efnahagsmálum, utanríkismálum eða öðru. Allir flokkar þurfa að hlusta á ungliðana sína og með hverri nýrri kynslóð fæðast nýjar áherslur sem þörf er á að innleiða. Ef það tekst má bæði klappa og klappstýra en aldrei láta eins og baráttunni sé lokið.
Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson
Formaður Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar
.
Fordómar
Pistli frá 8. ágúst 2015.
„Ég fer ekki í almenningssundlaugar því HIV-smituðum er hleypt ofan í.“
Í dag er góður dagur til að ræða fordóma. Ekki gegn þeim sem skilgreina sig ekki sem gagnkynheigt cis-fólk. Ekki gegn HIV-smituðum. Bara fordóma almennt.
Opnunarlínunni var kastað fram af partýgesti um daginn án hiks og án þess að viðkomandi bliknaði. Umræddur einstaklingur, sem var háskólagenginn og raunvísindamenntaður, hefði getað sparað sjálfum sér og öðrum mikil óþægindi með því að googla 'can hiv be transmitted through pool water?' Ég spái í öllum pottapartýunum sem manneskjan hefur misst af. Ég spái líka í því hve mörgum öðrum viðkomandi hafi sagt frá þessum ótta sínum án þess að vera leiðréttur – eða hversu marga hann hafi smitað af ranghugmyndunum.
Það er auðvelt að hafa fordóma fyrir fordómafullum, en það er líka stærilátt að gera án þess að líta í eigin barm. Reglulega heyrist setningin „ég er ekki fordómafullur“ og stundum er henni fylgt eftir með fullkomlega ósvífnu „en“. Jafnvel þegar samtengingunni er sleppt er fullyrðing þó ósönn. Með því að afneita eigin fordómum útilokum við möguleikann á að bæta úr þeim. Í því samhengi er tvennt mikilvægt. Annars vegar að gæta þess að leita réttra og fullnægjandi upplýsingar og hins vegar vera opin fyrir því að umræddar upplýsingar breyti afstöðu okkar til málefnisins. Hið síðarnefnda er erfiðara en án þess er hið fyrrnefnda fullkomlega óþarft.
Það er óumdeilanleg skylda okkar allra að leiðrétta augljósar ranghugmyndir sem við heyrum um einstaklinga eða hópa, en við þurfum líka að hlusta með opnum hug á gagnrýni á okkar eigin skoðanir. Ég hef engin sterk lokaorð með þessum pistli en bið alla sem hafa nennt að lesa svona langt að halda áfram og lesa líka greinina sem ég deili með honum. Í ljósi HIV-þemans læt ég líka fylgja link á eitt af síðustu lögunum sem Freddie Mercury tók upp með Queen.
.
Karlastörf
Pistill frá 19. júní 2015, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Árið 1929 ritaði Virginia Woolf: „Sennilegt tel ég að Anon, sem fjölda ljóða hefur kveðið án þess að leggja nafn sitt við þau, hafi oft verið kona.“ Líklega hafði frú Woolf rétt fyrir sér því samfélagslegur halli gegn konum birtist ekki bara í pólitík heldur endurspeglast í menningu okkar og listum. Sem dæmi veit ég ekki til þess að neinn kveðskapur eftir íslenskar konur hafi varðveist á milli Steinunnar Finnsdóttur, sem fæddist 1640, og Brennu-Njáls sögu, sem gat kvæða eftir Steinunni Refsdóttur og Þórhildi skáldkonu. Þar á milli eru heilu aldirnar af horfnum skáldskap kvenna.
Jafnrétti fyrir lögum er bæði sjálfsagt og mikilvægt en það er líka yfirborðskennt. Sjö ár liðu frá því konur hlutu rétt til að bjóða sig fram til Alþingis og þar til fyrsta konan var kjörin til þings. Hálfri öld síðar höfðu færri en 10 konur verið kjörnar til setu við þessa mætu stofnun. Misréttið var ekki bundið í lög heldur samofið samfélaginu. Fáar konur buðu sig fram því hvatinn til þess var ekki til staðar og þær sem buðu sig fram voru ekki kosnar því fólk taldi karlmenn hæfari til að gegna jafn mikilvægum störfum. (Hver myndi ráða konu í karlmannsstarf?)
En í dag eru breyttir tímar, er það ekki? Maður myndi óska þess. Edduverðlaunin voru gagnrýnd fyrir fáar tilnefningar til kvenna og fólk hrópaði: „Það eru bara svo fáar konur í kvikmyndabransanum!“ Engin kona var kosin í stjórn Landsbjargar og svarið var: „Það buðu sig svo fáar konur fram!“ Í nýlegri úttekt kom fram að 7 af 87 æðstu stjórnendum fyrirtækja í íslensku fjárfestinga- og fjármálakerfi séu konur. Hvert er svarið við því? Er stjórnun kannski bara karlastarf?
Ef það væri rétt að konur hefðu ekki áhuga á árangri og frama þá hefðum við ennþá aðeins 1-2 konur á þingi og sennilega væri yfirgnæfandi meirihluta háskólanema karlkyns. Þrátt fyrir að hvorugt sé raunin heldur fólk áfram að færa fram sömu afsakanir og fyrir 100 árum síðan. Að konur þurfi að sýna meiri dugnað og geti sjálfum sér um kennt. Sannleikurinn er sá að þegar mismunun er samofin samfélaginu þarf hver kona að leggja á sig meiri vinnu og taka við meira mótlæti en maðurinn sem stendur við hliðina á henni til að ná sama markmiði. Því fyrr sem samfélagið viðurkennir það því fyrr getum við breytt því.
Á 100 ára afmæli kosninga- og kjörgengisréttar kvenna hafa færri en 100 konur verið Alþingismenn. Miðað við fækkun á hlutfalli kvenna á Alþingi í síðustu kosningum, þrátt fyrir hlutfallslega fjölgun kvenna í framboði, eigum við ennþá nokkuð í land - bæði í pólitík og menningu. Baráttan fyrir jöfnum rétti kynjanna er hvergi nærri yfirstaðin en það þýðir samt ekki að við ættum ekki að fagna þeim jákvæðu breytingum sem þegar hafa orðið. Í dag skulum við gleðjast og svo heldur baráttan áfram.
Til hamingju með daginn!
.
Kim Jong
Pistill frá 15. desember 2014
Nú má segja að það sé stór partur af íslenskri menningu að fara í klippingu. Flestir fara í klippingu nokkrum sinnum á ári, sumir af skyldurækni en aðrir vegna þess að hárstíllinn skipar mikilvægan sess í lífi þeirra. Þetta gildir líka nokkuð jafnt um alla, konur og menn, börn og fullorðna. Þrátt fyrir það höfum við, sem samfélag, aldrei gert þá kröfu að leik- og grunnskólar leiði börn í klippingu. Sem er skrítið í ljósi þess að þetta er partur af okkar menningu og skaðar ekki nokkurn mann. Þvert á móti hefur það almennt jákvæð áhrif á fólk að setjast niður og láta skera hár sitt.
Fólk hefur jú misjafnar skoðanir á klippingum, en eru það einhver rök fyrir því að menntastofnanir eigi ekki að sjá um hárskurð? Geta börn með sérþarfir ekki bara farið í heimsókn í háskólann meðan skólinn þeirra uppfyllir hlutverk sitt við að skipta börnunum upp í hóp þeirra sem hljóta ríkisklippinguna og hóp hinna sem eru öðruvísi? Að lokum, ef grunnskóli hefði síðustu áratugi sent nemendur sína í klippingu tvisvar á ári en því væri breytt svo foreldrar þyrftu að fara með börnin í klippingu, fælist í því aðför gegn hárskerum?
Philae
Pistill frá 14. nóvember 2014.
Í fyrradag lenti rannsóknarfarið Philae á halastjörnunni 67P. Ég varð aftur 12 ára gamall og réð mér varla af eftirvæntingu, enda er um að ræða langstærsta afrek geimvísindanna síðustu áratugi. Geimferðastofnun Evrópu tókst að elta uppi 4 km langan stein sem ferðast á 135.000 km hraða á klst. og er núna í 500.000.000 km fjarlægð frá okkur. Til að setja stærðir og fjarlægðir í samhengi þá er þetta svipað því að standa við Hallgrímskirkju og hitta rúllandi golfkúlu við Smáralind.
Stærsti hluti verkefnisins var þó ekki að ná halastjörnunni heldur þurfti einnig að lenda á henni til að rannsaka yfirborðið og ljúka tilgangi ferðarinnar. Halastjörnur eru meðal elstu hluta sólkerfisins og kunna að geyma efni frá stjörnuþokunni sem sólkerfið okkar myndaðist úr. Þannig gæti rannsóknin veitt svör við virkilega stórum spurningum, t.a.m. um mótun reikistjarnanna og uppruna lífs. Þrátt fyrir að lendingin hafi ekki heppnast sem skyldi hafa Philae og móðurfarið Rosetta þegar sent okkur magn af ómetanlegum gögnum.
Fyrir þá sem hugsa efnahagslega pratískt þá skapaði verkefnið urmul af störfum. Um 2000 sérfræðingar komu að verkefninu yfir 18 ára tímabil og nemur heildarkostnaður 1,4 milljörðum evra, eða rétt um 600 kr. per íbúa aðildarríkja stofnunarinnar, sem sýnir okkur hvað hægt er að afreka í krafti fjöldans. Því þykir mér súrt að horfa á nágranna okkar fjármagna byltingarkenndar geimrannsóknir meðan ég sit hér og greiði 245.646 kr. í styrki til fasteignaeigenda.
Þorskhöfðaskurður
Pistill frá 28. júlí 2014.
Sögumoli: Fyrir sléttum 100 árum síðan lýsti Austurrísk-ungverska keisaradæmið stríði á hendur Serbíu. Í kjölfarið fylgdi hrina af stríðsyfirlýsingum um gervalla álfuna og er dagurinn því talinn marka upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar. Fáir vita þó að sama dag þyrptist fólk að Þorskhöfða (e. Cape Cod) til að sjá Þorskhöfðaskurðinn opnaðan eftir 5 ára vinnu og áratuga undirbúning. Framtakið stytti siglingarleiðina frá Boston til New York um 66 mílur og veitti leið framhjá svæði, sem hafði í skugga fjölda sjóslysa verið nefnt kirkjugarður Atlantshafsins. Ytri leiðin um Þorskhöfða ber ábyrgð á fleiri skráðum skipsbrotum en Bermúdaþríhyrningurinn og má telja að opnun skurðarins hafi bjargað lífum hundruða sæfara á síðastliðinni öld. En Mlada Bosna og Austurrísk-Ungverskum stjórnvöldum að þakka man enginn eftir opnun Þorskhöfðaskurðar!
Queen
Pistill frá 27. júní 2014.
Á þessum degi árið 1970 börðu tónleikagestir Truro City Hall, í Cornwall á Bretlandi, í fyrsta sinn augum hljómsveitina Queen. Tónleikasalurinn hafði verið bókaður fyrir fyrri hljómsveit Brians May og Rogers Taylor, sem hét Smile. Á milli þess sem salurinn var bókaður og tónleikarnir haldnir urðu þó mannabreytingar því söngvari Smile yfirgaf félaga sína til að freista gæfunnar með folkrokk hljómsveitinni Humpy Bong. Aðdáandi sveitarinnar, Farrokh "Freddie" Bulsara (síðar Freddie Mercury), sannfærði May og Taylor um að hætta ekki við giggið og fyllti sjálfur í skarð horfna söngvarans auk þess að stinga upp á nafnabreytingunni. Ef Freddie hefði ekki náð að sannfæra félaga sína um að halda ótrauðir áfram væri barnið fyrir utan gluggann hjá mér sennilega ekki búið að öskra We Will Rock you síðasta hálftímann.
Börn Marleys
Hluti greinar sem birt var á scene.is 22. ágúst 2011.
Meistari Bob Marley kom víða við. Ekki bara í tónlistinni heldur í ástarlífinu líka (erfitt að finna mann sem lagði jafn mikið upp úr því að elska náungann). Nákvæmur fjöldi ávaxta ástarleikja reggíkóngsins er óþekktur en hátt í 20 manns hafa haldið því fram að helmingur gena sinna sé runninn undan honum. Sá yngsti þeirra fæddur eftir andlát Marleys. Af þessum fjölda hafa aðrir fjölskyldumeðlimir þó aðeins viðurkennt 11 einstaklingar sem afkomendur hans.
[...]
Það er nánast sjálfgefið að í svona stórum hópi fólks, með gen Marleys, finnist hæfileikaríkir tónlistarmenn. Og hvort þeir gera, nánast öll börnin hans hafa látið að sér kveða á sviði tónlistar og fjórir synir þeirra þekktastir. Hér fyrir neðan mun ég reifa hvað öll 11 börnin eru að gera í dag.
Ziggy Marley
Elsti sonurinn var skírður David en gefið gælunafnið Ziggy af föður sínum (Ziggy er jamaískt slangur fyrir litla jónu). Árið 1979 stofnaði hann hljómsveitina Ziggy Marley and the Melody Makers, sem enn þann dag í dag kemur víða fram á tónleikum. Hann hefur verið ötull talsmaður lögleiðingar marijuana og er að leggja lokahönd á að skrifa myndasögu um hetjuna Marijuanaman. Ziggy gaf í sumar út sína fjórðu sólóplötu, Wild and Free. Hann víkur ekki mikið frá stíl föður síns og er tónlist hans uppfull af hlýju reggí með boðskap um ástina.
Hér má heyra lagið Forward to Love af plötunni Wild and Free:
http://www.youtube.com/watch?v=3lrKdBI-3G4
Stephen Marley
Ekkert Marley systkina hefu runnið jafn mörg Grammy-verðlaun og Stephen. Allt frá því hann hóf tónlistarferil sinn með Ziggy Marley and the Melody Makers hefur hann rakað inn verðlaunum og eru þau orðin sjö talsins. Stephen gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 2007 og er hans þriðja væntanleg fyrir árslok. Ásamt því að koma fram sjálfur með eigið efni hefur hann verið iðinn við að pródúsera plötur bræðra sinna og fleiri reggílistamanna. Hann túraði með Snoop Dogg og Slightly Stoopid á Blazed and Confused túrnum árið 2009 en hefur síðan þá eytt tíma í að koma fram sjálfur og vinna með yngsta bróður sínum, Damian.
The Mission, sem Stephen flytur ásamt Damian:
http://www.youtube.com/watch?v=a422R4h2bPM
Julian Marley
Fáir geta státað af færni á jafn mörgum hljóðfærum og Julian. Hann spilar á allt frá hinum hefðbundnu gítar og píanó (bassi o.s.frv.), til sértækra jamaískra hljóðfæra eins og merimbula. Auk þessa er hann bæði mökkfær trymbill og hinn efnilegasti flautuleikari. Hann hefur gefið út 3 sólóplötur og kom sú síðasta út árið 2009.
On the Floor af plötunni Awake:
http://www.youtube.com/watch?v=t4IQ5KXpt0M
Ky-Mani Marley
Fjórða barn hans, sem vakið hefur athygli, er Ky-Mani. Hann átti Bob Marley með borðtennisstjörnunni Anita Belnavis. Í upphafi lá hjarta Ky-Manis hjá íþróttum. Hann keppti bæði í evrópskum- og amerískum fótbolta (hið síðara réttilega nefnt handegg) en móðir hans ýtti honum út í tónlistarnám sem að lokum fangaði bæði hug hans og hjarta. Í dag hefur hann gefið út 5 plötur og vinnur að þeirri sjöttu. Hann semur hann bæði dancehall, reggí og reggí hip hop en lætur ekki staðar numið í tónlist því hann hefur tekið að sér hlutverk í nokkrum jamaískum kvikmyndum.
One Time af plötunni Radio:
https://www.youtube.com/watch?v=Q_o6eX4Y5Tw
Damian Marley
Í sérstöku uppáhaldi hjá mér er yngsta (viðurkennda) barn hálfguðsins. Damian er sonur Bob Marleys og Cindy Breakspeare, sem sigraði keppnina Ungfrú heimur árið 1976. Hann er í dag með dredda niður á hæla og almenna kenningin er sú að þeir verði flóttaleiðin hans úr fangelsi, með því að skera þá af og binda í kaðal, ef hann verður tekinn fastur. 13 ára gamall stofnaði Damian hljómsveitina Shephards en hún leið undir lok um miðjan 10. áratug síðustu aldar, um svipað leyti og Damian hóf sólóferil sinn. Damian hefur á einhverjum tímapunkti unnið með hverjum einasta af fyrrnefndum hálfbræðrum sínum og mörgum mun stærri nöfnum, líkt og Gwen Stefani, Alicia Keys og Snoop Dogg. Hann hefur hlotið 3 Grammy-verðlaun og er eini reggílistamaðurinn sem unnið tvö Grammy-verðlaun sama kvöldið.
Lagið Welcome to Jamrock af samnefndri plötu:
https://www.youtube.com/watch?v=_GZlJGERbvE
[...]
Úlfur Úlfur - Lupus Lupus
Birt á scene.is 11. ágúst 2011
Hliðarproject tveggja meðlima Bróður Svartúlfs og trendhljómsveit sumarsins, Úlfur Úlfur, hefur sent frá sér sitt fyrsta myndband. Óhætt er að segja að þessa dags hefur verið beðið af eftirvæntingu og fögnum við því að kominn sé tími á að fara í saumana á bæði laginu og myndbandinu.
Tveimur dögum áður en myndbandið kom út var teaser settur á Youtube. Undir stefinu úr Inception sýndi hann okkur klippur af Arnari og Helga standandi í kirkjugarði og orðin „Úlfur Úlfur“,„Lúpus Lúpus“ og „Væntanlegt“. Eina rökrétta ályktunin var að við mættum búast við kvikmyndastórvirki um matroskadrauma og átuberkla, úr smiðju hljómsveitarinnar.
Stóðust væntingarnar? Alls ekki.
Hvað kom í staðinn? Mögulega besta lag sumarsins og myndband fyllilega í stíl.
Þegar myndbandið var loksins birt kom í ljós að í teasernum höfðum við ekki heyrt Inception-stefið heldur upphafsstef lagsins Lupus Lupus. Athygli vekur að orðið lupus kemur hvergi fram í laginu en Úlfur Úlfur gerir það ítrekað, sem fær mann til að velta fyrir sér hvort lagið hafi í upphafi átt að vera samnefnt hljómsveitinni en hætt hafi verið við þegar Berndsen og Bubbi stungu öðru lagi með því nafni á topplista útvarpsrásanna. Í þessu ljósi er óhjákvæmilegt að Úlfur Úlfur muni gefa út lag með nafninu „Berndsen og Bubbi“.
Í upphafi myndbandsins standa meðlimir hljómsveitarinnar í Hólavallakirkjugarði, sem einnig er þekktur sem hræðilegasti fokkíng staður á jarðríki. Fáu er upp á töku eða vinnslu myndbandsins að kvarta. Lýsingin og litirnir eru mér ekki að skapi og deila má um hvort að hugmyndavinnu hafi verið ábótavant. Concept og texti lagsins bjóða að minnsta kosti upp á mun meira en strípaðar hreyfimyndir af flytjendunum á stökum tökustað.
Óháð slíkum pælingum er myndbandið gott og lagið fyrsta flokks. Meðlimir Úlfur Úlfur (Úlfs Úlfs?) koma manni ítrekað á óvart og hafa ekki enn valdið vonbrigðum. Án þess að fjölyrða frekar hvet ég þig til að horfa á myndbandið.
Íslenskir leikjaframleiðendur: Fancy Pants Global
Birt á scene.is 27. október 2011.
Árið 2009 tók saman höndum hópur af ungnördum, með sameiginlegan áhuga á hugbúnaðarframleiðslu, og stofnaði Fancy Pants Global. Frá stofnun hefur Fancy Pants Global unnið að margskonar verkefnum. Þeirra fyrst var að útbúa iPhone leik fyrir Maxímús Músíkús, sem er lukkudýr fræðslustarfs sinfóníuhljómsveitarinnar, þar sem notendur geta m.a. spilað á hljóðfæri og púslað.
Þessa stundina eru frumkvöðlarnir hjá Fancy Pants Global að vinna að sínum fyrsta leik sem er þeirra smíði frá grunni, þ.e. allt frá hugmyndavinnu til endanlegrar vöru. Leikurinn, sem verður fallbyssuleikur (e. physics-based cannon game), byggir á heimi þar sem gráðugar geimverur, sem kallast The Zorblobs, hafa lent á jörðinni. Fancy Pants Global hyggst síðan í framtíðinni byggja fleiri og öðruvísi leiki á sama heimi. Viggó Ingimar Jónasson hjá Fancy Pants Global líkti fyrirætlunum þeirra við það ef framleiðendur Pacman hefðu gert 3. persónuskotleik þar sem Pacman stútaði draugum með haglabyssu.
Samkvæmt Viggó er leikurinn að mörgu leyti tilbúinn og á bara eftir fínpússa hann, negla lausa enda og strá glimmeri yfir. Áætlaður útgáfudagur er í nóvember en er það háð því að ekki komi til neinna stórra skakkafalla. Strákarnir í Fancy Pants Global eru mjög spenntir og vonast til þess að ná ágætis árangri með leiknum. Þeir hafa að auki lagt drög að því að færa sig út á fleiri markaði. Til dæmis hefur Friðrik Þór Jóhannsson unnið svo mikla tónlist fyrir leikinn að hana væri hægt að gefa út á netinu eina og sér.
Oft helst í hendur að vera í sprotarekstri og að vera blankur. Fancy Pants Global þarf að vanda sig við markaðssetningu án þess að eyða í hana fjármunum sem ekki eru til staðar. Þess vegna þurfa þeir að treysta á svokallað viral marketing, sem meðal annars felst í því að vekja á sér athygli með sniðugum myndböndum sem fólk dreifir sín á milli á netinu. Samkvæmt Viggó eru þeir stór hópur af nördum sem þurfi að finna leiðir til að höfða til annarra nörda.
Scene.is óskar Fancy Pants Global velgengni í sínum störfum og mun færa fréttir af þeim þegar nær dregur útgáfu leiksins.
Iron Man vs. Thor vs. Captain America
Birt á scene.is 30. september 2011.
Ég þekki engan mann sem hefur ekki eytt tugum vökustunda í að velta fyrir sér hvert eftirfarandi sé mest awesome: Að a) eiga fljúgandi vélbúning með byssum, b) vera þrumuguð eða c) nota ofurstera og fá skotheldan skjöld. Þær þrjár ofurhetjur sem um ræðir hafa hingað til slegist sömu megin við línuna í kvikmyndaheimi Marvels og því höfum við ekki séð þeim att saman af fullum krafti. Hafið þó engar áhyggjur því við munum núna skera úr um hver þeirra hafi mesta yfirburði yfir hinar.
Vammleysi
Í fyrstu má ætla að Iron Man sé varnarlausastur þeirra allra. Ef Tony Stark fer úr búningnum til að brynna áfengis- og kvennþorsta sínum er hann jafn aumur og hver annar maður með gangráð, auk þess sem þekkt er að rafsegulhögg geta sett allan hans búnað úr skorðum.
Þrátt fyrir að búningslaus sé Iron Man auðveld bráð voru lesendur myndasagnanna vaktir við það fyrir 4 árum hve mannlegur Captain America er. Hann getur til að mynda ekki varist, eða lifað af, byssuskot í bakið. Stark er þá allavega skotheldur á meðan hann er Iron Man.
Samkvæmt Cracked var veikleiki Thors í upphafi sá að hann mátti ekki vera skilinn frá Mjölni í meira en 60 sek. í senn án þess að missa allan kraft sinn. Þar sem sá veikleiki hefur verið máður út úr myndasögunum og hefur ekki komið fram í kvikyndunum. Má því segja að þrumuguðinn sé með öllu laus við mannlega veikleika.
Vammleysi
Iron Man: 0,5
Thor: 1
Captain America: 0
Hæfileikar
Captain America er sterkur og getur hlaupið hratt en hann flýgur ekki og verður því, sama hvað, að teljast skör fyrir neðan hina tvo í hæfni. Hans stærstu kostir eru ofurmannleg viðbrögð, ónæmi fyrir eitri og vingjarnleg skapgerð, en hið síðastnefnda er sérstaklega áhrifaríkt þegar kemur að kvenkyns ofurskúrkum, á milli þrítugs og fertugs, í makaleit.
Iron Man getur flogið. Hann hefur fjölda vopna sem eru í stöðugri þróun hjá honum og í sumum sögum er hann orðinn að almennilegum cyborg sem geymir búninginn, að hluta eða heild, í líkamanum sínum og kallar hann fram með huganum. Var ég búinn að nefna að hann getur flogið?
Thor er líka fær um að fljúga en lætur þar ekki staðar numið. Thor er sterkastur af öllum guðunum, og þar af leiðandi sterkari en nokkur ofurhetja, hann hefur eilíft líf svo lengi sem hann borðar epli Iðunnar, hann getur stjórnað veðrinu og hann hefur mörgþúsund ára reynslu af bardögum. Hann getur ekki skotið geisla úr augunum en hann myndi líklega taka Superman í beran þrátt fyrir það. Af þessum ástæðum er tæplega hægt að færa rök fyrir því að hinir tveir eigi séns í Thor þegar kemur að ofurkröftum.
Hæfileikar
Iron Man: 1
Thor: 3
Captain America: 0,5
Kúlstig
Hérna kemur að erfiða partinum því kúlstig eru eingöngu gefin fyrir útlit og atferli. Thor ætti til dæmis að fá skrilljón mínusstig fyrir næstasnalegasta klæðnað í sögu grafískra bókmennta (á eftir Robin). Ég mun þó gæta meðalhófs í stigagjöf.
Captain America hefur lítið sem ekkert breyst, enda var búningurinn hans klassík frá upphafi. Gerð hafa verið nokkur frávik í gegnum tíðina, í mismunandi heimum, en sá sem birtist í myndinni er ótrúlega líkur hinum upprunalega – sennilega af því að hann virkar. Klæddu mann í bandaríska fánann, færðu honum skjöld og hann verður táknmynd alls sem er gott í heiminum.
Iron Man er, hands down, einhver nettasta ofurhetja allra tíma.Tony Stark er rokkstjarna í bæði viðskiptum og vísindum og leyfir sér að haga sér eftir því. Hann byggir vélbúning með tækni sem stingur af bestu orrustuþotur Bandaríkjanna og gæti ráðið niðurlögum hvaða heimsveldis sem er á augabragði. Til hvers notar hann tækið? Hann notar það a) sem heimavarnarher fyrir Bandaríkin og b) til að gera sjálfan sig að enn meiri rokkstjörnu en hann var fyrir.
Thor er varla þess virði að eyða í hann orðum. Risastór rauð skikkja, óútskýrðar stálskífur á bringunni og hjálmur með vængjum sem eru svo stórir að Hermes hefði skammast sín. Til allrar hamingju notaði hann hjálminn ekki nema örsjaldan í myndinni. Captain America er líka með vængi á hausnum en þeir eru nógu nettir til að maður geti leitt hugann að öðru.
Kúlstig
Iron Man: 2
Thor: -2
Captain America: 1
Myndirnar
Myndirnar hafa hver sitt þema. Captain America sýnir lítilmagnann verðlaunaðan fyrir það sem hann hefur fram að færa og verða ofan á. Thor er þroskasaga persónu sem lærir að sýna auðmýkt. Iron Man er ríkur maður að spreða peningunum sínum í vitleysu. Þær eru allar fagmannlega unnar og fullar afþreyingargildis. Iron Man hefur það fram yfir hina tvo að um hann hafa verið gerðar tvær myndir, sú fyrri fáránlega nett og hin síðari síðri en Thor og Captain America: The First Avenger.
Þar sem meðalgæði myndanna eru á svipuðu róli er ekkert hægt í stöðunni annað en að skera úr um þennan lið með því að dæma þær á kynþokka aðalkvenpersónanna. Þar hefur Iron Man aftur smávægilegt forskot því aðalfljóðin eru tvö, Gwyneth Paltrow og Scarlett Johansson. Á móti kemur að Thor skartar Natalie Portman, sem á ennþá eftir að svara bónorðinu sem ég póstlagði um daginn. Snótin úr Captain America náði að rokka seinni heimstyrjaldar lúkkið en á öðrum myndum nær hún ekki að heilla mig (ég er líka strax búinn að gleyma hvað hún heitir).
Miðað við þetta er stóra spurningin sem við þurfum að glíma við hvort Gwyneth Paltrow og Scarlett Johansson samanlagðar standist Natalie Portman snúning í kynþokka. Gwyneth Paltrow verður fertug á næsta ári (stór mínus að vera gamall) og Scarlett Johansson er ekki mín tíma. Á meðan er Natalie Portman epitóm hinnar fullkomnu konu og hefur átt leiksigur í hverju einasta hlutverki sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Þetta er því ekki jafn mikil keppni og kannski virtist í fyrstu.
Við nánari athugun er fljóðið úr Captain America ekki jafn óáhugaverð og mér sýndist fyrst. Aukastig fyrir það.
Myndirnar
Iron Man: 1,5
Thor: 2
Captain America: 1,5
Niðurstaða
Miðað við hæfileika og vammleysi Thors mætti gera ráð fyrir að hann hefði afgerandi yfirhönd í þessum samanburði. Þó með teknu tilliti til allra þátta virðist sem Iron Man sé osomasta ofurhetja The Avengers. Sannast þar hið gamalreynda að peningar eru besti ofurkraftur í heimi.
Niðurstaða:
Iron Man: 5
Thor: 4
Captain America: 3
Reykjavík-Rotterdam í Hollywood
Birt á scene.is 29. september 2011.
Margir sáu Reykjavík–Rotterdam þegar hún kom út og báru henni góða söguna. Þeirra á meðal (íslenskum aðstandendum myndarinnar til lukku) voru fjáðir kvikmyndaframleiðendur frá Vesturheimi, sem samstundis keyptu rétt til endurgerðar hennar.
Baltasar Kormákur, sem fór með aðalhlutverkið í Reykjavík – Rotterdam, var fenginn til að leikstýra Contraband og stjórnaði þar einvala liði stórleikara á borð við Mark Wahlberg (Marky Mark), J.K. Simmons, Giovanni Ribisi, Ben Foster og Kate Beckinsale.
Endurgerðin hefur að sjálfsögðu verið staðfærð og fjallar því ekki um smygl á milli Íslands og Hollands. Má telja líklegt að siglt verði í myndinni á milli Bandaríkjanna og Bretlands en þau tvö eru talin upp sem framleiðslulönd hennar samkvæmt IMDB, eða að smyglið verði á milli Suður- og Norður-Ameríku.
Í gær var gefinn út trailer fyrir myndina, sem mun bera nafnið Contraband, og lofar hann vægast sagt góðu. Þar má m.a. finna Ólaf Darra sem skipsmann og endurgerð á atriðinu þar sem Baltasar braut bílrúðu og dró Jóhannes Hauk út um hana til að lúskra á honum. Eitthvað hefur útgefendunum litist á verkið því frumsýningardeginum var flýtt um 2 mánuði frá því er upphaflega hafði verið ákveðið og verður hún frumsýnd 13. janúar 2012 hið ytra.
Kostnaður við myndina er talinn vera um 32 milljónir dollara, en það er yfir þreföld sú upphæð sem síðasta mynd Baltasars, Inhale, kostaði.
Ekki hafa borist fregnir um að Contraband verið prufusýnd á Íslandi fyrir áætlaða frumsýningu, svo við getum ekki annað gert en að bíða spök til næsta árs eftir þessu nýjasta framtaki Íslendings í kvikmyndaheiminum.
The Artist
Kvikmyndagagnrýni sem var birt á scene.is 25. janúar 2012.
7.0
Í endalausu umróti kjarnorkugrafíkur og þriggja vídda tekur kvikmyndamarkaðurinn óvæntan viðsnúning með myndinni The Artist. Á meðan megni þess sem kvikmyndahúsin taka inn eru nýjar myndir í þrívídd og endurgerðir gamalla stórvirkja í jafnmörgum er okkur sent lítið ljós frá Frakklandi. The Artist var valin besta myndin á Golden Globe-verðlaunahátíðinni og hefur nú verið tilnefnd til 10 Óskarsverðlauna.
Myndin um listamanninn hefst árið 1927 en það ár er almennt talið marka upphaf snarpra endaloka hinna þöglu kvikmynda. Hér er sögð saga George Valentin, sem er sjálfhverfur og drambsamur leikari, en jafnframt ein dáðasta stjarna Hollywoodland (eins og stóð á skilti kvikmyndaborgarinnar til ársins 1949).
Heimur George umturnast með tilkomu hljóðs í kvikmyndir. Hann lítur á hljóðtæknina sem bólu og neitar að lúta þeim breytingum sem markaðurinn tekur. Þegar framleiðslufyrirtækin snúa sér alfarið að kvikmyndum með hljóði tekur George til við að fjármagna sínar eigin þöglu kvikmyndir og fullyrðir að það sé ekki sönnum listamönnum vert að tjá sig með hljóðum. Myndirnar hans eru illa sóttar og listamaðurinn fer fljótlega hausinn.
Inn í allt annað er síðan fléttuð rómantísk saga á milli George Valentin og ungrar leikkonu að nafni Peppy Miller. Peppy á George að þakka þá velgengni sem hún nýtur í kvikmyndaheiminum og þegar hann missir tökin á lífi sínu gerir hún sitt besta til að vera honum til taks, enda var hann draumaprins hennar á hvíta tjaldinu í mörg ár áður en þau kynntust.
The Artist er einstaklega faglega unnin í alla staði. Hún er svarthvít og að mestu án nokkurs hljóðs (utan tónlistar). Leikstjórinn kaus að skjóta myndina í 1,33:1 hlutföllum, sem voru algengustu hlutföll þöglu kvikmyndanna og að því leyti er hann mjög trúr kvikmyndunum sem hann stælar. Tónlistin að hluta valin en mestu samin af Ludovic Bource en hann hefur áður unnið með leikstjóra myndarinnar við frönsku spæjaramyndirnar OSS 117. Þær myndir skarta einnig sama aðalleikara, Jean Dujardin. Veikasti hlekkur myndarinnar er eiginkona leikstjórans, Bérénice Bejo, sem leikur Peppy. Ég vil ekki rægja hæfileika hennar en ég tel næsta víst að leikstjórinn hafi verið hlutdrægur í vali sínu.
Í myndinni má sjá ýmsar vísanir í gömul kvikmyndaminni og lesa skilaboð úr plaggötum í bakgrunni senanna. Leikstjórinn og sjónrænir hönnuðir hafa skemmt sér mikið við að bæta þessum atriðum inn og útfæra þau, enda fást mörg kúlstig fyrir vel heppnuð páskaegg. Óskarstilnefningar myndarinnar koma ekki á óvart enda eru um að ræða fágað Óskarsrúnk frá fyrstu mínútu og til þeirrar síðustu, þ.e. mynd sem er framleidd með það í huga að vera verðlaunamynd frekar en afþreying. The Artist verður heldur langdregin á köflum og viðburðalítil fyrir miðju. Það má segja að myndin hangi uppi á krafti fyrstu og síðustu 20 mínútnanna.
Líklega á myndin sérstaklega vel við í dag vegna þess sem ég nefndi í upphafi. Nýtilkomin tækni veldur því að kvikmyndaheimurinn stendur í dag á því sem gæti verið brún mikilla sviptinga. Hvort boðskapur myndarinnar sé heimfæranlegur upp á það sem verða vill skal tíminn leiða í ljós og bæði óþarft og ómögulegt að fjölyrða um það hér.
Þegar allt er tekið saman stendur The Artist eftir sem faglega unnin en langdregin kvikmynd sem kitlar hláturtaugarnar á köflum en mun ekki halda athygli allra.
Underworld: Awakening
Brot úr kvikmyndagagnrýni sem var birt á scene.is 8. febrúar 2012.
5,5
Underworld ævintýrið heldur áfram.
Hraður hasar þar sem lögmál eðlisfræðinnar hafa verið endanlega gefin upp á bátinn. Þegar myndin hefst er mannkynið orðið meðvitað um tilvist vampíra og varúlfa og hefst handa við að útrýma þessum hættulegu kynstofnum. Útrýmingin gengur upp og við hoppum 12 ár fram í tímann þar sem Selene, aðalpersónan úr fyrri myndunum, vaknar eftir að hafa verið fryst í rannsóknaskyni.
Selene kemst að því að hún á 12 ára dóttur sem er hálf vampíra og hálfur varúlfur. Selene heldur af stað til að bjarga dóttur sinni og kemst í leiðinni að því að ekki er allt sem sýnist. Kannski heppnaðist útrýmingin ekki jafn vel og leit út í fyrstu.
Mörgu er ábótavant í þessari fjórðu mynd seríunnar. Tölvubrellurnar eru til að mynda ekki á par við það sem tíðkast í dag. Þær hafa ekki batnað frá fyrstu myndinni og því miður telst meðalgrafík frá 2003 ekki góð áratug síðar. Myndina skortir einnig þann klassa sem vampírur eru yfirleitt látnar bera í skáldskap og varúlfarnir eru talsvert minna ógnvekjandi en varúlfarnir annarra mynda (næstum vinalegir).
Underworld: Awakening hefur mörg þemu sem einkenna vampírumyndir, s.s. hatrammar deilur við varúlfa og kynferðisbrot gegn börnum. Meira gore er í myndinni en fyrri hlutum seríunnar, sem dæmi má nefna að við fáum að sjá 12 ára stelpu rífa barkann úr vísindamanni. Þó vantar ýmislegt upp á að myndin geti talist góð og eftir situr myndrænn en óáhugaverður búningahasar.
Mammút
Brot úr plötudómi sem var birtur í Monitor, júní 2009.
Karkari - 80%
Út úr myrkrinu kemur snöggur trommusláttur og annað barn Mammút ríður inn af krafti. Fyrsta lag Karkara ber nafnið Endir og setur strax viðmið fyrir það sem koma skal. Ævintýralegt verður að teljast hve miklum framförum hljómsveitin hefur tekið frá fyrri plötu sinni sem kom út fyrir tveimur árum. [...] Eitt helsta einkenni Mammút er sem áður ótrúlega kraftmikill söngur Katrínar Mogensen. Bjarkarbarkinn hennar flytur tónlist sveitarinnar hæglega upp um mörg sæti í hjarta mér. Þrátt fyrir það er hún langt frá því að vera eini kostur hljómsveitarinnar. Drungalegar bassalínur og úthugsuð gítarriff ríma vel við hughrífandi píanóleik og trommuslátt. Allt saman myndar þetta einhverja sérstæðustu en jafnframt eigulegustu íslensku hljómplötu þessa árs. [...]
Sprengjuhöllin
Brot úr plötudómi sem var birtur í Monitor, desember 2008.
Bestu kveðjur - 84%
Hljómsveitin sem eignaðist Ísland í fyrra hefur gefið út sína aðra plötu, uppfulla af velþegnu gleðipoppi og hamingju. Lögin á plötunni einkennast af fallegum melódíum og lifandi textasmíði. Í grunninn er tónlist sveitarinnar ekki flókin en með snjöllum útsetningum og fjölda hljóðfæra eru lögin dýpkuð talsvert.
Textarnir fjalla svífandi um ástina og dauðann, viðkvæmni, sigra og þá staðreynd að við getum alltaf byrjað upp á nýtt. Þá er ánægjulegt að sjá beitingu stuðla- og rímreglna víða á plötunni. [...] Bestu kveðjur er hrá plata en vel unnin. Hún á til að verða langdregin á köflum en gleðin í flutningi og pælingar listamannanna gera hana svo ósköp ljúffenga að allt annað er fyrirgefið.[...]
Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur kvikmyndatónlist John Williams
Stjórnandi: Michael Krajewski
23. október 2009
[...] Af þeim kvikmyndatónskáldum sem ég lít mest upp til trónir John Williams á toppnum. Með margar stærstu kvikmyndir sögunnar í hnappagatinu hefur hann skipað sér sess sem eitt virtasta tónskáld samtímans. Til að kynna Williams í örfáum orðum þá fæddist hann í febrúar 1932, hóf nám við Juilliard árið 1955 og var farinn að semja tónlist fyrir sjónvarpsþætti áður en 6. áratugurinn var liðinn. Á ferli sínum hefur hann hlotið fleiri Óskarstilnefningar en nokkur annar lifandi maður og ættu flestir vesturlandabúar að geta raulað með sér allavega eitt af alkunnum stefum hans. Tónleikarnir voru einhver best sótti viðburður sinfóníunnar frá upphafi en hljómsveitinni tókst að fylla aðalsalinn í Háskólabíó tvisvar (og fengu þó færri sæti en vildu).
Til að gefa óljósa mynd af umfangi verka Williams þá er tónlistin úr Stjörnustríðsmyndunum einum yfir 14 klukkustundir í flutningi.[...]
Krajewski er öruggur stjórnandi og mátti sjá að hann naut þess að taka þátt í verkefninu, þrátt fyrir að hafa verið ráðinn til þess með stuttum fyrirvara.[...]
Næst flutti sinfónían stef Hedwigs úr Harry Potter. Stefið er leitmotif, sem fylgir uglunni Hedwig í hvert sinn sem hún kemur fyrir, og má heyra í einhverri útgáfu í öllum Harry Potter myndunum. Eitt af megineinkennum lagsins er seiðandi selestustef ofan í fagran flautuleik. Við val á hljóðfærum fyrir lagið horfði Willams til kollega síns og stórskáldsins Tchaikovskys, en Tchaikovsky var meðal fyrstu manna til að notfæra sér dáleiðandi hljóm selestunnar í barnaævintýrinu um hnotubrjótinn. Flutningur sinfóníunnar var sannfærandi og fumlaus, sem er meira en að segja það því verkið er ekki einfalt.
Við flutning á aðalstefi kvikmyndarinnar Listi Schindlers steig Sigrún Eðvaldsdóttir á stokk og lék einleik á fiðlu. Sigrún lék af slíkri innlifun að salurinn allur tók að klökkna. Myndin fjallar um Þjóðverja sem bjargaði fjölda gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni og leyfði Williams áhrifum gyðingatónlistar að skína í gegn í verkum myndarinnar.[...]
Framhaldstónleikar Ómars Arnar Arnarsonar
29. apríl 2009
[...] Næst tóku við nokkrar Bagatellur eftir William Walton, og mátti þar strax greina töluverðan mun á gítarleiknum. Bagatellurnar eru tregablandnar og fallegar. Ómar spilaði þær gullfallega, án þess að glata fyrrnefndri ákveðni. Bagatellurnar eru líka í hægara tempói en svítan og gefa þannig meira svigrúm fyrir túlkun.
Síðustu verkin á dagskránni voru Granada og Asturias eftir Isaac Albéniz. Granada er líðandi og minnir á hafið en Asturias er suðrænt og ákveðin spenna bundin í verkinu. Báðum verkunum tókst Ómari að skila nær óaðfinnanlega frá sér og því lítið um þau að segja. Maður fékk á tilfinninguna að honum þættu þau þægilegri en fyrri verkin.
Eftir að flutningi á verkum Albéniz var lokið stóð Ómar upp, hneygði sig og gekk út. Honum var þó fljótlega ýtt inn aftur og réttur blómvöndur. Fólk hélt áfram að klappa þar til Ómar settist aftur niður og sagðist ætla að taka eitt aukalag. Ég veitti því athygli að það var í fyrsta sinn sem maður heyrði hann tala á tónleikunum. Hann sagði orðrétt: „Taka hérna lítið stykki eftir Antonio sem heitir La Negra“. Verkið heitir fullu nafni La Negra (Valse Venezolano) og er eftir Suður-Ameríska gítarsnillinginn Antonio Lauro. Það verk spilaði Ómar síðan af meira öryggi en nokkurt annað verk á tónleikunum, með hæfilegum skammti af bæði tilfinningu og túlkun.[...]
Eftirfarandi er brot úr óritrýndri námsritgerð.
Mörk ritskoðunar
Kunna nýleg dæmi um afskipti handhafa ríkisvaldsins af fjölmiðlum að teljast ritskoðun skv. íslenskum rétti?
1 Inngangur
Saga fréttamiðla er eldri en saga prentsins og sennilega eldri en saga ritmáls (þótt hið síðarnefnda sé erfitt að sanna í ljósi bersýnilegs skorts á heimildum). Ein fyrsta skráða notkun skipulagðra fréttamiðla er frá tímum Forn-Egypta, þar sem faróar notuðu boðbera til að dreifa upplýsingum um tilskipanir sínar til embættismanna.[1] Lengst af voru skipulagðir fréttamiðlar einmitt reknir af valdhöfum og nýttir til að koma á framfæri upplýsingum um reglur og markmið valdhafanna. Með tilkomu prenttækninnar og aukins læsis meðal almennings breyttist hlutverk fréttamiðla og má ætla að þeir hafi meðal annars átt stóran þátt í dreifingu þeirrar hugmyndafræði er kom af stað frönsku byltingunni undir lok 18. aldar.[2] Því er fyrirséð að í miðlun upplýsinga geti falist talsvert vald og hefur fjölmiðlun af þeirri ástæðu gjarnan verið nefnd fjórða valdið (e. the fourth estate, n. den fjerde statsmakt), til viðbótar við hina þrjá almennu anga ríkisvaldsins.[3]
Í dag er prentfrelsið fellt undir vernd tjáningarfrelsis, sem (af augljósum ástæðum) er talið veita víðtækari vernd en hið fyrrnefnda. Má í því samhengi meðal annars benda á orðalagsbreytingu prentfrelsisákvæðis stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944,[4] sem gerð var með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995.
[...]
3.3 Tilraunir valdhafa til að hafa áhrif á tekjur fjölmiðla
Við febrúarlok 2014 hugnaðist formanni fjárlaganefndar Alþingis ekki umfjöllun um sig, sem birt var á vefsíðu Kvennablaðsins, og hvatti í kjölfarið tiltekinn rekstraraðila til að hætta að auglýsa á vefsíðunni. Hvatninguna setti formaðurinn fram á samfélagssíðunni facebook.com. Miklar umræður spunnust um réttmæti ummæla formannsins og strax daginn eftir samþykkti stjórn Blaðamannafélags Íslands ályktun þar sem fordæmdar voru allar tilraunir til að vega að skoðana- og tjáningarfrelsi í landinu. Í ályktuninni sagði meðal annars: „Það verður ekki þolað að fólk í valdastöðum reyni að beita áhrifum sínum til þess að vega að tilverugrundvelli fjölmiðla vegna þess hlutverks þeirra að birta skoðanir.“[16]
Alþingismenn eiga sama rétt til að tjá skoðanir sínar og aðrir borgarar (og enn ríkari rétt vegna þess sem sagt er á þingi, sbr. 2. mgr. 49. gr. stjskr.). Þrátt fyrir að ummæli formanns fjárlaganefndar teljist í besta falli furðuleg og jafnvel ámælisverð, verður ekki séð að þau feli í sér ritskoðun í skilningi 2. mgr. 73. gr. stjskr.
Í MDE Ungvári og Irodalom kft. gegn Ungverjaland, 3. desember 2013 (64520/10) leituðu höfundur greinar og útgefandi blaðs réttar síns eftir að hafa verið sektaðir fyrir birtingu hennar. Í niðurstöðu MDE kom meðal annars fram að hagnaðarsjónarmið liggi oft að baki útgáfu fjölmiðla og of ströng ábyrgðarlöggjöf geti því haft áhrif á ritstjórnarstefnu þeirra og hamlað „varðhundahlutverki“ þeirra. Því væri mikilvægt að ábyrgðarreglur ýttu ekki undir innri ritskoðun ritstjórnar.
Þrátt fyrir að ekki sé hægt að heimfæra ummæli formanns fjárlaganefndar með beinum hætti undir þetta fordæmi mannréttindadómstólsins er það til marks um mikilvægi fjármögnunar fyrir fjölmiðla og varpar ljósi á það bylmingshögg sem handhafar ríkisvalds geta veitt litlum fjölmiðlum með ummælum sem þessum.
[1] James Henry Breasted: A History of Egypt, bls. 243.
[2] Jean-Noël Jeanneney: Une histoire des médias, bls. 60-63.
[3] Til dæmis skilar leitarvélin Google nálægt 6000 niðurstöðum þegar leitað er að hugtakinu á íslensku. Sjá slóð í heimildaskrá.
[4] Framv. rituð sem stjórnarskrá eða stjskr.
[16] „Fordæmir tilraunir til að vega að tjáningarfrelsi“, www.press.is.
Eftirfarandi er brot úr óritrýndri námsritgerð.
Sala og veðsetning hluta í andstöðu við samþykktir félaga
Afleiðingar að lögum og réttarstaða aðila
[...] Þegar forkaupsréttarákvæði samþykkta eru skoðuð má líta til þess að forkaupsréttur telst til óbeinna eignarréttinda og nýtur réttarverndar sem slíkur.[14] Í Hrd. 13. desember 2007 (210/2007), þar sem reyndi á túlkun forkaupsréttarákvæðis í kaupsamningi um jörð, sagði m.a.: „Forkaupsréttur er íþyngjandi fyrir eiganda þar sem hann setur ákveðnar hömlur á ráðstöfunarrétt eignar. Við skýringu ákvæða er lúta að afmörkun og útfærslu forkaupsréttar verður jafnan að leggja til grundvallar að þau leggi ekki önnur höft á eignarráð eiganda en þau sem ráða má með sæmilegri vissu af samningi með orðskýringu.“ Í Hrd. 2000, bls. 4306 (285/2000), sem reifaður var í síðasta kafla, var m.a. deilt um hvert beina hefði átt tilkynningu um nýtingu forkaupsréttar og taldi Hæstiréttur ekki rétt að lesa meira úr forkaupsréttarákvæðinu en þar stæði berum orðum. Gagnstæð niðurstaða myndi vega mjög að rétti aðila sem hyggðust ráðstafa eign sinni, víðar en einungis á sviði hlutafélagaréttar.
Ljóst er að forkaupsrétthafar njóta ríkrar réttarverndar leiti þeir réttar síns innan eðlilegra tímamarka. Í Hrd. 2002, bls. 1176 (354/2001) taldi Hæstiréttur hluthafa ekki geta virkjað forkaupsrétt sinn á þeim grundvelli að ákvörðun hafi verið tekin á ólöglega boðuðum fundi, þegar 10 ár voru liðin frá hinum umdeilda fundi. Er þetta í samræmi við þá kenningu samningaréttar að menn firri sig rétti sínum með tómlæti.[...]
[14] Þorgeir Örlygsson: Kaflar úr eignarétti I, bls. 30.
Eftirfarandi er brot úr óritrýndri námsritgerð.
Hugtökin „hafa að markmiði“ og „af þeim leiðir“ í 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005
Samanburður við meginregluna um samningsfrelsið og kröfuna um skýrleika refsiheimilda
[...] Líkt og nefnt var í inngangi er fullframningarstig ákvæðisins fært fram, sem þýðir að ekki er þörf á að sýna fram á raunveruleg skaðleg áhrif samnings til að hann teljist brjóta gegn ákvæðinu. Hugtakið „af þeim leiðir“ er að því leyti gagnstætt markmiðsáskilnaðinum. Það gerir kröfu um tilteknar afleiðingar, óháð því hvort þær séu í samræmi við tilgang samningsins. Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 telst verknaður ekki varða refsingu nema hann sé unninn af ásetningi eða gáleysi og ennfremur teljast gáleysisbrot einungis refsiverð sé sérstök heimild fyrir því í lögum, sbr. 18. gr. laganna. Enga slíka kröfu er að finna í skl. en ganga má þó út frá því að eitthvað stig ásetnings sé ávallt til staðar. Þ.e. aðilar hljóta í öllum tilvikum að hafa að minnsta kosti ásetning til að ganga til þeirra samninga, samþykkta eða framkvæma þær samstilltu aðgerðir, sem teljast brjóta gegn 10. gr. skl., þrátt fyrir að mismunandi ásetningur sé til staðar gagnvart afleiðingum samnings.
Skýringu á hugtökunum er ekki að finna í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 107/2000. Þar sem ákvæðið er byggt á 101. gr. SSE má þó líta til skýringa í leiðbeiningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um beitingu hennar. Þar segir meðal annars að við mat á markmiði samnings þurfi, út frá efni hans, að meta tilætluð áhrif og lagalegar og hagfræðilegar forsendur. Ásetningur um slíkt markmið er ekki skilyrði fyrir beitingu reglunnar en þó er heimilt er að líta til þess hvort hann sé til staðar. Í dæmaskyni er nefnt að skipti upplýsinga sem varða fyrirætlanir um verð eða innkaup ættu að teljast samkeppnishamlandi. Við mat á því hvort láréttur samningur milli fyrirtækja leiði af sér samkeppnishömlur í skilningi ákvæðisins þarf ennfremur að bera saman lagalega og hagfræðilega stöðu fyrir gerð samningsins annars vegar og eftir hana hins vegar.[15] Í þessu ljósi kann sönnun að vera torveldari við mat á afleiðingum en markmiði.[...]
[15] Communication from the Commission: Guidelines on the applicability of Article 101 of the Treaty on the Functioning of the European Union to horizontal co-operation agreements (2011/C 11/01).
Eftirfarandi er brot úr óritrýndri námsritgerð.
Ótilhlýðilegir hagsmunir í skilningi 95. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög
4 Hugtakið ótilhlýðilegir hagsmunir
Ótilhlýðileiki er hvergi skilgreindur í lögum en þó víða notaður. Má þar, auk þeirra tilvika sem þegar hafa verið nefnd, vísa í almenna riftunarreglu 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Í veforðabók Snöru er lýsingarorðið ótilhlýðilegur skilgreint sem „ekki til þess fallinn, tilheyrir ekki, óhæfilegur“.[22] Ekki fæst séð að þessar skilgreiningar falli vel að þeim skilningi sem lagður er í orðið í lögum. Nær væri að telja ótilhlýðileika bæði hlutlægan og huglægan mælikvarða á réttlætanleika ákvörðunar. Hér er því um að ræða vísireglu sem er til þess fallin að breytast í samræmi við ríkjandi hugmyndir um vald hluthafa. Líta má til tilgangs ákvæðisins og kanna í sambandi við það hvaða ákvarðanir hafi verið óeðlilegt að taka á þeim tímapunkti og við þær aðstæður sem um ræðir. Hlýtur þar að hafa vægi athugun á því hvort líkur séu á að hagsmunirnir sem um ræðir skekki vægi hluthafa til áhrifa eða veiti fjárhagsleg fríðindi, sem telja má ósamrýmanleg inntaki hlutafélagalaganna í heild, en önnur ákvæði taka þó ekki til.[...]
Til frekari skýringar má líta til niðurstöðu máls í Hrd. 1999, bls. 4523 (226/1999). Þar hafði í sameignar- og eignaskiptasamningi frá 1978, sem húseigendur að Hafnargötu 20 gerðu sín á milli, verið vísað til hlutafélagalaga varðandi ákvarðanatöku. Árið 1996 ákvað húsfélagsfundur breytingar á húsinu og taldi einn eigenda þær breytingar meðal annars til þess fallnar að rýra verðmæti fasteignar sinnar. Í niðurstöðu sinni féllst Hæstiréttur ekki á að ákvarðanir húsfélagsfundarins hefðu verið til þess fallnar að afla ákveðnum eigendum hússins ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnanda. Við mat á því hvort um ótilhlýðilega hagsmuni hafi verið að ræða virðist Hæstiréttur fyrst og fremst hafa litið til þess hvort ákvörðunin stæðist formkröfur og hvort auknar skyldur myndu leggjast á stefnanda í kjölfar breytinganna. Hæstiréttur vísaði ekki til orsakasambands og ættu breytingarnar á 95. gr. frá 2010 því sennilega hafa lítil eða engin áhrif á fordæmisgildi dómsins.
Í fræðiskrifum hefur stundum verið vísað til ótilhlýðilegra ákvarðana í stað ákvarðana sem afla ótilhlýðilegra hagsmuna. Þrátt fyrir að færa megi rök fyrir því að ekki sé um ranga fullyrðingu að ræða verður hún að teljast ónákvæm að nokkru marki. Í ýmsum tilvikum mætti telja ákvarðanir hluthafafunda ótilhlýðilegar þrátt fyrir að þær afli hvorki hagsmuna né skerði þá. Má þar sem dæmi nefna að hluthafafundur samþykkti breytingu á félagssamþykkt þess efnis að enginn hluthafi hefði framvegis atkvæðisrétt nema vera í svörtum sokkum (eða hawaii-skyrtu). Einhverjum kynni að finnast slík ákvörð ótilhlýðileg með öllu en ekki fæst séð að hún hefði áhrif á hagsmuni hluthafa og félli því utan ákvæðis laganna.[...]
[22] http://www.snara.is
Eftirfarandi er brot úr óritrýndri námsritgerð. Meðhöfundur Arnar Þór Pétursson.
3. tl. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki
Beiting að íslenskum rétti og álitamál sem snúa að vernd tjáningarfrelsisins
[...] Í greinargerð með frumvarpi því er varð að vml. eru vörumerki sem líkjast lögreglumerkinu eða merki annars yfirvalds tekin sem dæmi um vörumerki sem kunna að brjóta gegn allsherjarreglu.[23] Í ljósi þess að upptalningin í greinargerð er í dæmaskyni er ekki um tæmandi talningu að ræða. Í vörumerkjaumsókn nr. 2539/2011, HELLS ANGELS MC ICELAND (orð- og myndmerki), sóttu samtökin Hells Angels um að orð- og myndmerkið HELLS ANGELS MC ICELAND yrði skráð í vörumerkjaskrá Einkaleyfastofu. Þeirri umsókn hafnaði Einkaleyfastofa grundvelli þess að vörumerkið teldist andstætt allsherjarreglu, sbr. 3. tl. 1. mgr. 14. gr. vml. Einkaleyfastofa vísaði til fjölda heimilda við túlkun sína á hugtakinu allsherjarregla virðist stofnunin hafa leitast við að halda túlkuninni hlutlægri. Fyrst leit Einkaleyfastofa til skrifa fræðimannsins Jóns L. Arnalds um 3. tl. 1. mgr. 14. gr. vml. Benti hann á að undir ákvæðið gæti fallið ef merki væri til þess fallið að valda andúð vegna „stjórnmálalegra, trúarlegra eða siðferðislegra sjónarmiða“. Næst var í ákvörðuninni athugað hvernig hugtakið er skilgreint í íslenskri orðabók á vefbókasafninu Snörunni en þar segir „það að haldið sé uppi lögum og reglu í samfélaginu eftir því sem nauðsynlegt verður að teljast.“ Þá leit Einkaleyfastofa til þess að í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-6159/2010 frá 22. desember 2011 hafi ríkislögreglustjóri lagt fram gögn sem veittu rökstuddan grun um að samtökin stunduðu skipulagða glæpastarfsemi, auk þess sem litið var til skýrslu embættis ríkislögreglustjóra frá mars 2010, þar sem tekið var fram að Hells Angels MC ICELAND hafi gerst stuðningsklúbbur Hells Angels, sem stunduðu skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi. Tekið var fram að skipulögð glæpastarfsemi væri ógn við samfélagið sem beindist gegn almannahagsmunum og græfi undan öryggi borgaranna. Það leiddi til þess að skráning umrædds vörumerkis gengi gegn 3. tl. 1. mgr. 14. gr. Benti Einkaleyfastofa einnig á að löggjafinn og dómstólar væru þau yfirvöld sem væru bær til að meta hvað teldist allsherjarregla. Rétt er þó að benda á að sambærilegt vörumerki fékkst skráð á vörumerkjaskrá bæði í Noregi[24] og Evrópusambandinu.[25] Ennfremur virðast Hells Angels samtökin taka vörumerki sín alvarlega og hafa sem dæmi stefnt Toys “R” Us vegna meinrar ólögmætrar notkunar merkis á jójó-um,[26] Disney vegna kvikmyndarinnar Wild Hogs[27] og Alexander McQueen vegna haust- og vetrarlínu 2010.[28] Öllum umræddum málum var lokið með sáttum.[...]
[23] Alþt. 1996-97, A-deild, bls. 2091.
[24] Patentstyret, http://www.search.patentstyret.no/.
[25] Office for the Harmonization in the Internal Market, http://www.oami.europa.eu/.
[26] „Hells Angels and Toys “R” Us Settle “Death Head” Trademark Litigation“, http://www.natlawreview.com/.
[27] „Trademark Dilution and Infringement Complaint. Hell’s Angels Motorcycle Corp. vs. Walt Disney Motion Pictures Group, Inc., et al.“, http://news.findlaw.com/.
[28] „Hells Angels Sue Saks, McQueen Design, Over Trademark“, http://www.bloomberg.com/.